Lífið

Fimm hringferðalangar

Fimm einstaklingar eru nú á göngu, hjóli eða siglingu um landið til styrktar góðum málefnum. Samtals hafa þeir lagt að baki fjögur þúsund og fimm hundruð kílómetra. Jón Eggert hóf strandgöngu sína frá Vogum á Vatnsleysuströnd þann 17. júní síðastliðinn og ætlar að ganga að Egilsstöðum í þessum áfanga. Hann er kominn yfir Almannaskarð og hóf gönguna upp úr klukkan átta í morgun rétt austan við skarðið. Hann hefur nú lokið við um 600 kílómetra göngu af rúmlega 900 kílómetrum, en hann gengur til styrktar Krabbameinsfélaginu. Í samtali við fréttastofu sagðist Jón Eggert hafa það ágætt. Á meðan hann teygði vel á kvöldin og kæmist reglulega í heita pottinn væri hann fínn. Bjarki Birgisson og Guðbrandur Einarsson eru þessa stundina á gangi á Möðrudalsöræfum en þeir ganga hringveginn til að vekja athygli á málefnum fatlaðra barna. Ganga þeirra félaga nefnist Haltur leiðir blindan. Bjarki er hreyfihamlaður og Guðbrandur er nær blindur. Þeir lögðu af stað frá Reykjavík þann 20. júní og áætla að vera komnir á Lækjartorg þann 4. ágúst.  Þeir hafa nú gengið rúma 700 kílómetra. Að sögn Guðbrands gengur ferðalagið vel og þeir eru á áætlun. Í nótt munu þeir gista í Möðrudal. Eggert Skúlason fyrrverandi fréttamaður á Stöðvar 2 lagði á Holtavörðuheiðina klukkan sjö í morgunt og kom hjólandi niður í Borgarfjörð í morgun. Eggert hjólar til styrktar Hjartaheill og hefur lagt að baki um 1300 kílómetra. Morguninn hefur verið góður hjá Eggerti, en hann hefur barist við mótvind og rigningu frá því hann lagði af stað. Eggert kemur hjólandi til Reykjavíkur annað kvöld og verður heimkoman sýnd í beinni útsendingu í Íslandi í dag. Kjartan Hauksson ræðari siglir á sérstökum bát hringinn í kringum landið til styrktar Sjálfsbjörg. Hann hélt af stað úr Bolungavík þann 7. júní og þegar fréttastofan náði sambandi við hann var hann staddur á Neskaupsstað. Fyrir austan er nú bjart veður en töluverð hafgola. Kjartan hefur því notað næturnar til að róa í logninu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.