Lífið

Kom ríðandi á ljósmyndasýningu

Andlit norðursins með augum Ragnars Axelssonar ljósmyndara er sýning þessa árs á Austurvelli. Ragnar hefur tengst mörgum myndefnanna vinaböndum, þar á meðal Kristni fjallkóngi frá Skarði sem kom ásamt dóttur sinni Rakel ríðandi á opnun sýningarinnar í dag. Gestir og gangandi fá tækifæri til að njóta mynda Ragnars Axelssonar eða Raxa eins og flestir þekkja hann fram að hausti. Þetta eru sextíu myndir, frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Ragnar er löngu þekktur fyrir sérstaka hæfileika sína sem erfitt er að lýsa í orðum en óhætt er að segja að hann nær að fanga dramatísk augnablik hversdagsins og láta áhorfandann um leið finna fyrir mikilli nálægð við myndefnið. Myndefni eins og Kristinn Guðnason fjallkóng frá Skarði sem sést á einni myndinni bjarga kind úr vandræðum í Eystri Rangá. Kristinn segist stoltur af myndinni, hún sé falleg og sérstök. Ragnar Axelsson segir flesta sem hann hefur tekið myndir af orðið góða vini hans en suma hitti hann ekki aftur. Hann reyni þó að fylgjast með hvað sé að gerast í þeirra lífi. Kristinn fjallkóngur sem ekkert breytist kom ríðandi til byggða á hestinum Gyrði en Eldur, sem hann var á þegar myndin góða var tekin, er fallinn. Kristinn segir íslenska hestinn magnaða skepnu og útlendingar furði sig oft á fjölbreyttu hlutverki hans. Menn sjái sömu hestana í keppni á Landsmótum og svo aftur við smölun í afréttum. Aðspurður hvort það sé ekki eins og Íslendingar allir, sem þurfi að ganga í öll verk, segir Kristinn að kannski hafi Íslendingar mótast eftir hestinum. Maður og hestur er einmitt næsta verkefni Raxa en að þessu sinni ætlar hann að mynda ferðalag þeirra um landið úr lofti og að sjálfssögðu allt í svart hvítu. Hann segir að sér finnist svarthvítar myndir miklu flottari. Það séu margir sem taki miklu betri myndir í lit en hann þannig að hann geri eins vel og hann geti í svarthvítu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.