Sport

Auðun bestur í umferðum 1 til 6

Það er óhætt að segja að Auðun Helgason hafi stimplað sig inn í íslenska knattspyrnu með stæl í sumar. Hann gekk til liðs við FH fyrir tímabilið eftir farsælan atvinnumannaferil sem hófst árið 1997 er hann gekk í raðir svissneska liðsins Neuchatel. Auðun staldraði stutt við hjá félaginu því næsta vetur var hann kominn í raðir norska félagsins Viking, sem hann lék með til ársins 2000. Þá gekk Auðun í raðir belgíska félagins Lokeren en árið 2003 fór hann til sænska félagsins Landskrona og eftir tveggja ára dvöl hjá sænska félaginu lá leiðin heim til FH á ný. Auðun hefur leikið eins og hershöfðingi í vörn FH-liðsins og það er ekki síst honum að þakka að FH-liðið hefur aðeins fengið tvö mörk á sig í fyrstu sex leikjum Íslandsmótsins. Frammistaða Auðuns skilaði honum síðan sæti í íslenska landsliðinu gegn Möltu þar sem hann lék enn eina ferðina eins og kóngur og var ekki hægt að sjá að þar færi maður sem hefði ekki leikið með landsliðinu í háa herrans tíð. "Ég er mjög sáttur við mína spilamennsku og hversu vel við höfum náð saman í vörninni. Við erum varla að fá færi á okkur," sagði Auðun en hann tók sæti Sverris Garðarssonar í varnarlínu FH. Hann stökk nánast fullskapaður í það hlutverk og vart hægt að sjá að hann væri að leika með Tommy, Frey og Guðmundi í fyrsta skipti. Auðun kom til félagsins í janúar og hann segir það hafa hjálpað sér mikið. "Það sögðu tveir góðir menn við mig í vetur að margir sem kæmu heim hefðu átt erfitt uppdráttar og vöruðu mig við. Það var nokkuð mikið áfall að koma heim aftur og sem betur fer kom ég snemma svo ég gat aðlagast. Ég hafði mjög gott af því enda er eiginlega allt öðruvísi hér heima en úti. Ég meina þá umgjörð, leikstíll og auðvitað geta leikmanna. Ég var svolítið ryðgaður framan af og ég væri ekki að spila svona vel ef ég hefði komið rétt fyrir mót." Auðun fékk verðskuldað tækifæri með landsliðinu gegn Möltu eftir að hafa setið á varamannabekknum í nokkrum leikjum landsliðsins fyrr í riðlinum. Auðun segir að tækifærið hafi mátt koma fyrr. "Ég fer ekkert í grafgötur með að mér fannst ég eiga skilið að fá tækifæri fyrr því við vorum að tapa illa á þessum tíma. Ég horfði upp á þetta og mér fannst ég geta gert betur og ég lét þjálfarana vita af því. Það var ánægjulegt að vera tekinn óvænt inn og þar að auki treyst fyrir að stýra varnarleik liðsins. Ég er ekki orðinn of gamall fyrir landsliðið og ætla mér að spila fleiri leiki fyrir Ísland í framtíðinni," sagði hinn 31 árs gamli Auðun Helgason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×