Erlent

Ekki einfalt að flýta kosningum

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, kastar sprengju inn í þýsk stjórnmál með því að fara fram á að kosningar til Sambandsþingsins fari fram ári fyrr en áætlað var. Það eru þó ýmis ljón í veginum fyrir þeim áætlunum. Jafnaðarmannaflokkur Schröders galt afhroð í héraðsþingkosningum í Nordhrein-Westfalen í gær þar sem flokkurinn hefur verið við völd í tæpa fjóra áratugi. Kristilegir demókratar fengu 45 prósent atkvæða en Jafnaðarmannaflokkurinn 37 prósent. Í kjölfarið tilkynntu Schröder kanslari og Franz Muntefering, formaður Jafnaðarmannaflokksins, að kosningum til Sambandsþingsins, sem áttu að fara fram haustið 2006, yrði flýtt. Það er þó hægara sagt en gert. Til að rjúfa þing þarf vantraustsyfirlýsingu þingsins eða samþykki forsetans, Hors Köhlers. Köhler þarf að setjast niður með lögspekingum og fara vandlega yfir þýsku stjórnarskrána. Jafnvel er talið líklegt að gerðar verði á henni breytingar á þann veg að tveir þriðju hlutar þingsins nægi til að rjúfa þing. En fleira gæti staðið í veginum. Kristilegir demókratar, helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, eru ekki spenntir fyrir erfiðum kosningaslag og vita ekki hvern þeir eiga að bjóða fram sem kanslaraefni þótt Angela Merkel þyki líklegt. Persónufylgi formanns Græningja, Joscka Fischers, er í lágmarki og fylgi flokksins helst í hendur við það. Líklegt er að þeir séu því ekkert yfir sig spenntir fyrir því að flýta kosningum. Þá er talið líklegt að þetta muni valda klofningi innan Jafnaðamannaflokks Schröders. Vinstri armurinn, sem telur Schröder hafa gert sér of dælt við viðskiptalífið á kostnað félagslegra umbóta, gæti einnig orðið honum til vandræða. Kanslarinn segir þó ekkert annað í stöðunni. Úrslitin í héraðskosningunum í gær sýni að grafið hefur undan umboði hans og ríkisstjórnarinnar. Það sé skylda hans að flýta kosningum og verði honum að ósk sinni, fara þær að öllum líkindum fram strax í haust, ári áður en kjörtímabilinu lýkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×