Erlent

Átök eftir leik í Danmörku

Lögregla í Kaupmannahöfn þurfti að skjóta viðvörunarskotum og beita fyrir sig lögregluhundum þegar áhangendur mankedónsks handknattleiksliðs trylltust eftir tap liðsins fyrir danska liðinu Slagelse í dag. Greint er frá því á vefsíðu Politiken að áhangendurnir hafi orðið ósáttir við niðurstöðu leiksins því þeir slógust hver við annan. Þegar lögreglumaður hugðist stöðva ólætin og skella einum áhangendanna í gangstéttina réðust hinir á hann. Í kjölfarið skaut lögregla viðvörunarskoti upp í loftið og létu Makedónarnir þá lögreglumanninn lausan. Þrír voru handteknir vegna slagsmálanna en öðrum var ekið í lögreglufylgd út á flugvöll. Um var að ræða fyrri viðureign Slagelse og makedónska liðsins Kometal Skopje í Meistaradeild kvenna í handknattleik og fór fyrrgreinda liðið með sigur af hólmi, 27-23.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×