Erlent

Danir biðja gyðinga afsökunar

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur beðist afsökunar á því að Danir vísuðu gyðingum og fleirum frá landinu í seinni heimsstyrjöldinni, í opinn dauðann í Þýskalandi. Afsökunarbeiðnin kemur í kjölfar upplýsinga frá Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni fornleifafræðingi. Forsætisráðherrann baðst opinberlega afsökunar í ræðu í gærkvöldi við athöfn sem haldin var í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá lokum styrjaldarinnar. Rasmussen sagði að á sama tíma og Danir fögnuðu því að 60 ár væru liðin frá því að hersetu Þjóðverja lauk yrðu þeir líka að muna eftir skuggahliðum hersetunnar sem sneru að þeim sjálfum. Hann sagði að afsökunarbeiðnin breytti ekki sögunni en hún gæti kannski orðið til þess að komandi kynslóðir gerðu ekki sömu mistök. Ýmsir hafa bent á þennan svarta blett í danskri sögu og að undanförnu hefur mikið verið fjallað um rannsóknir íslenska fornleifafræðingsins Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar sem sýnt hefur fram á að danskir embættismenn vísuðu að eigin frumkvæði að minnsta kosti 21 gyðingi úr landi og til Þýskalands þar sem þeir síðan báru beinin í útrýmingarbúðum nasista, eins og Auschwitz. Sendiherra Ísraels í Damörku fagnaði afsökunarbeiðni forsætisráðherrans og sagði hann Dani sýna mikið hugrekki með því að líta á þennan hátt í eigin barm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×