Erlent

Baðst afsökunar á brottvísunum

Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur hefur beðist afsökunar á því að dönsk stjórnvöld vísuðu gyðingum úr landi í seinni heimsstyrjöldinni og enduðu í útrýmingabúðum nasista. Þetta gerist í kjölfar rannsókna Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar fornleifafræðings. Forsætisráðherrann gerði þetta við athöfn í gærkvöldi sem haldin var til að minnast þess að 60 ár eru liðin frá lokum styrjaldarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem dönsk stjórnvöld biðjast afsökunar á því að gyðingum og fleirum hafi verið vísað frá Danmörku á stríðsárunum en flestir þeirra enduðu ævina í útrýmingabúðum á borð við Auschwitz. Danskir embættismenn vísuðu fólkinu úr landi að eigin frumkvæði. Ýmsir hafa bent á þennan þátt í sögu landsins, en nú síðast hefur verið mikil umfjöllun um skrif Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar fornleifafræðings sem sýnt hefur fram á að tuttugu og einum gyðingin var vísað frá Danmörku til Þýskalands í seinni heimsstyrjöldinni, vísað í dauðann. Anders Fogh Rasmussen segir þetta eina af skuggahliðum styrjaldaráranna í sögu landsins. Sendiherra Ísraels í Danmörku fagnar afsökunarbeiðni danska forsætisráðherrans og segir ráðherrann hafa sýnt hugrekki með henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×