Erlent

Bundu enda á Íraksdeilur

George Bush, foseti Bandaríkjanna, og Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, ræddu í dag saman í síma til þess að reyna að binda enda á deilur landanna um drápið á ítalska leyniþjónustumanninum Nicola Calipari í Írak, en bandarískir hermenn skutu hann til bana skömmu eftir að hann hafði frelsað ítalska blaðakonu úr haldi uppreisnarmanna. Þjóðirnar tvær rannsökuðu málið í sameiningu en fulltrúar þeirra komust ekki að samkomulagi um niðurstöðu rannsóknarinnar og skiluðu því hvorir sinni skýrslunni. Í skýrslu Bandaríkjamanna voru hermennirnir hreinsaðir af öllum ásökunum um mistök í starfi en ítölsk yfirvöld komust að því að hermennirnir hefðu verið stressaðir og ekki brugðist rétt við þegar bíll Caliparis nálgaðist vegatálma þeirra. Í tilkynningu frá forsætisráðuneyti Ítalíu segir að Bush hafi í samtalinu aftur vottað Ítölum samúð sína vegna fráfalls Caliparis og sagt að hann væri mikil hetja. Enn fremur kom þar fram að Ítalir og Bandaríkjamenn stefndu enn að sömu markmiðum í Írak, en háværar kröfur voru uppi á Ítalíu um að ítalskir hermenn yrðu kallaðir heim frá Írak vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×