Innlent

Sundabraut tefst vegna járnarusls

Samgönguyfirvöld voru sökuð um að svelta Reykvíkinga eftir að R-listinn komst til valda, í umræðum um Sundabraut á Alþingi. Sjálfstæðismenn sögðu brautina tefjast vegna þess að R-listinn vildi hengja járnarusl upp á Sundin.  Ekki er gert ráð fyrir neinum framlögum til framkvæmda við Sundabraut, samkvæmt samgönguáætlun til næstu fjögurra ára sem er í meðförum Alþingis. Samgönguráðherra segir Sundabraut einfaldlega of stórt verkefni. Ráðherrann sagði á að borgarstjórn hefði ekki tekið afstöðu til þess hvar Sundbraut ætti að liggja, auk þess sem kærumálum væri ólokið. Því væri margra ára vinna eftir og ótímabært að gera ráð fyrir framkvæmdum næstu tvö árin, uns samgömguáætlun verður næst endurskoðuð. Björgvin Sigurðsson Samfylkingunni sagði fráleitt að halda því fram að frestunin sé borgaryfirvöldum um að kenna og vísaði ábyrgðinni til ríkisstjórnarinnar. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa beitt R-listann „sveltistefnu“ frá því hinir síðarnefndu hafi komist til valda í borginni árið 1994. Guðmundur Hallvarðsson Sjálfstæðisflokki sagði að sannleikurinn væri sá að borgaryfirvöld hafi ekki enn tekið ákvörðun um legu Sundabrautar. Og hann gagnrýndi R-listann fyrir að vilja byggja tilkomumikla brú í anda Golden Gate brúarinnar í San Fransisco, og kallaði hann þá hugmynd „járnarusl“. Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum, sagði orð Guðmundar þvætting og spurði hvort einhvers staðar lægi fé á bankabók til að ráðast í gerð Sundabrautar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×