Sport

3-0 tap vegna fótboltabullna

Ítalska knattspyrnusambandið hefur nú þegar tekið fyrsta skrefið í áttina að hertri meðferð gegn knattspyrnubullum þar í landi í kjölfar ólátanna á leik AC Milan og Inter Milan á San Siro í gærkvöldi. Héðan í frá verður engin miskunn hjá Magnúsi hjá ítalska sambandinu sem hefur boðað róttækar aðgerðir. Sambandið sendi síðdegis í dag frá sér tilkynningu þar sem fram koma áherslubreytingar á reglum þar í landi sem lúta að slíkum ólátum. "Ef dómari ákveður að blása af leik vegna hluta sem hent er inn á völlinn í leik, hluta sem geta valdið fólki skaða, mun liðinu sem ber ábyrgð á leiknum verða dæmdur leikurinn tapaður 3-0." segir í tilkynningu sambandsins en forseti þess, Franco Carraro, tók þessa ákvörðun í dag og mun þessi reglubreyting taka gildi strax á föstudaginn. Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hvatti til þess í dag að tekið yrði á ofbeldi á knattspyrnuleikjum eftir að flauta varð leik Inter Milan og AC Milan af í gærkvöldi vegna mikilla óláta og blysa og flugelda sem fleygt var inn á völlinn, meðal annars í markvörð AC Milan. Berlusconi, sem er eigandi Milanliðsins, hefur gefið innanríkisráðherranum Pisanu leyfi til að beita róttækum aðgerðum til að stöðva þessa þróun, enda er þetta stjórnleysi, umsókn Ítalíu, um að halda Evrópukeppnina í knattspyrnu árið 2012, ekki til framdráttar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×