Lífið

Ég sá þarna fallega sópran

Það kom ekki til af góðu einu að Thorstein settist á skólabekk á Íslandi haustið 1970. Hann og fleiri þurftu að sækja læknanám sitt utan landsteinanna þar sem norskir háskólar önnuðu ekki eftirspurn eftir plássum í læknadeildinni. "Ég var hér í sex ár og það voru mjög skemmtileg ár," segir Thorstein. Hann var á Íslandi á dögunum til að kynna samstarfsverkefni Blóðbankans og norsku stofnfrumugjafaskrárinnar um stofnun slíkrar skrár á Íslandi. Thorstein er yfirlæknir við ónæmisdeild Ríkisspítalans í Ósló og kom stofnfrumugjafaskránni þar í landi á laggirnar fyrir fimmtán árum. Á námsárunum kynntist hann eiginkonu sinni Steinunni Einarsdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau dæturnar Elínu Maríu og Rebekku. "Við Steinunn kynntumst í kór sem var tengdur KFUM og K. Ég sá þarna fallega sópran sem þurfti að athuga betur," segir Thorstein og hlær þegar hann rifjar upp fyrstu kynni þeirra hjóna. Þau syngja enn saman, eru í kirkjukór í Ósló og komu í söngferðalag til Íslands síðastliðið vor. Margt hefur breyst Koma Thorsteins til Íslands á sínum tíma bar brátt að. "Ég fékk símskeyti 8. september og þar stóð að ef ég gæti komið til Íslands viku síðar og verið við skólasetningu fengi ég pláss. Ég skildi fátt annað í símskeytinu og bróðir minn sem var að læra forn norræn mál skildi heldur ekki neitt. Ég vissi því ekki hvað ég var að fara út í. En það var vel tekið á móti mér og þetta gekk allt saman mjög vel." Fleiri norðmenn numu við læknadeildina og sömuleiðis nokkrir Svíar. Skandinavíski hópurinn hélt mikið saman, sótti Norræna húsið og hélt sín partí. Thorstein kunni vel við sig í Reykjavík þó annar bragur hafi verið á borginni þá en nú. "Mér fannst svo margt ófrágengið, hér var mikið af fokheldum húsum og slíku. Svo var úrvalið í búðunum lítið, nánast engir veitingastaðir og þetta var eins og að koma út í sveit. Ósló var líka sveitarleg á þessum tíma og bekkjarbræður mínir kölluðu borgina stærsta sveitaþorp heimsins. Ósló hefur breyst mikið en Reykjavík enn meira." Og til marks um afstöðu læknanema á Íslandi fyrir 35 árum til Óslóar og Noregs rifjar Thorstein upp að ekki hafi hvarflað að nokkrum manni að fara þangað til framhaldsnáms. Allir vildu til Svíþjóðar, Bandaríkjanna eða Bretlands. "Nú hefur þetta breyst og margir Íslendingar stunda framhaldsnám í Noregi." Kári klár Úr hópi skólabræðra Thorsteins í læknisfræðinni eru tveir honum afar eftirminnilegir. "Frægasti skólabróðir minn var Kári Stefánsson og ég man mjög vel eftir honum. Hann var afar fær nemandi, mjög duglegur og alltaf á toppnum í öllum fögum. Það er ótrúlegt hvað Kári hefur náð langt en það kemur mér ekki á óvart, hann var svo duglegur og áhugasamur." Thorstein nefnir líka Stefán Karlsson, prófessor í Lundi, sem eftirminnilegan samnemanda. "Hann var með þeim fyrstu sem settu gen inn í frumur og veitir genameðferð við ákveðnum sjúkdómum. Hann er með þeim allra fremstu í sinni röð. Stefán og Kári eru heimsfrægir og það var gaman að vera með þeim í skóla." Sjálfur hefur Thorstein unnið afar merkilegt starf við ónæmisdeild Ríkisspítalans í Ósló. Hann setti stofnfrumugjafaskrána á fót og hefur unnið að uppbyggingu hennar í fimmtán ár. Þá hefur hann doktorsnema undir sinni handleiðslu og nú um stundir er Íslendingurinn Ólafur Sigurjónsson hjá honum. "Ólafur er að vinna að því að búa til heilafrumur úr stofnfrumum í beinmerg. Við vitum ekki hvort hægt verður að nota þetta í framtíðinni en vonumst til að þetta nýtist í meðferð gegn parkinsons og jafnvel fyrir fólk sem hlotið hefur mænuskaða. En það verður bara að koma í ljós." Og yfirlæknirinn lætur vel af doktorsnemanum."Ólafur er prýðismaður og ég hef varla haft svona góðan mann fyrr. Hann stendur sig mjög vel." Íslenska og norska Íslenskukunnátta Thorsteins er afar góð en hann segir það vandmál hve Steinunn kona hans talar góða norsku. "Ég tala íslensku við Steinunni en hún norsku við mig. Þess vegna hef ég gleymt íslenskunni heilmikið og þarf lengri tíma til að finna orðin og beygi sjálfsagt enn vitlausar en ég gerði áður." Hann heldur góðu sambandi við Ísland og Íslendinga en fylgist ekki með daglegri umræðu. Þegar hann var hér á dögunum las hann þó blöðin. "Ég sé að nú er mikið rætt um hvernig Ísland tók á íraksmálinu en það kom mér á óvart þegar stríðið byrjaði að Ísland studdi innrásina. Á norðurlöndunum var almennt neikvætt viðhorf til málsins nema í Danmörku. Norðmenn voru á móti þrátt fyrir að hafa alltaf fylgt Bandaríkjamönnum í öllum Natóaðgerðum. Við höfum hins vegar tekið þátt í því sem kallað er uppbygging landsins," segir Thorstein sem finnst alla jafna mjög gaman að koma til Íslands. "Landið er framandi það er stórkostlegt að vera í náttúrunni þar sem saman koma ís, fjöll, heita vatnið og hverirnir. Hér er mjög fallegt í góðu veðri og nú er til dæmis afar fallegt að horfa á Esjuna." Spurður um muninn á Íslendingum og Norðmönnum nefnir Thorstein hve Íslendingar eru vinnusamir. Dugnaðurinn á öðrum sviðum vekur líka athygli hans. "Íslendingar eru alltaf til í tuskið. Norðmenn fara snemma í háttinn til að geta farið á skíði morguninn eftir en þá byrjar ballið hjá Íslendingunum og þeir vilja halda áfram."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.