Innlent

Fjarvistarsönnun staðfest

Sveinn Andri Sveinsson verjandi Tryggva Lárussonar.
Sveinn Andri Sveinsson verjandi Tryggva Lárussonar.

Hæstiréttur hefur gert Héraðsdómi Reykjavíkur að fjalla á nýjan leik um þátt Tryggva Lárussonar í Dettifossmálinu svonefnda en það snýst um stórfelldan innflutning á fíkniefnum.

Héraðsdómur dæmdi Tryggva til refsingar fyrir að hafa keypt tæp átta kíló af amfetamíni í Roosendaal í Hollandi í byrjun júlí á síðasta ári þrátt fyrir að þrjú vitni hafi borið að hann hafi verið staddur á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku á sama tíma.

Í dómnum segir að vitnisburður og framburður Tryggva um að hann hafi verið staddur á Hróarskelduhátíð dagana 30. júní til 5. júlí 2004 útiloki ekki veru hans í Hollandi og Þýskalandi áður.

Síðar í dómnum segir svo að sannað sé að hann hafi annast kaup á amfetamíninu í byrjun júlí. Ósamræmið felst í því að á einum stað fellst dómurinn á að Tryggvi hafi verið á Hróarskeldu í júlíbyrjun en nokkrum línum síðar er hann sagður hafa keypt amfetamínið í Hollandi á sama tíma.

"Það verður þrautin þyngri fyrir ákæruvaldið að vinda ofan af þessu," segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Tryggva. Hann hefur lagt fram gögn um enn fleira fólk sem vitnað geti um veru Tryggva á Hróarskeldu í júlíbyrjun 2004 og segir að ef vitnin staðfesti mál sitt fyrir dómi liggi fyrir að Tryggvi verði sýknaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×