Lífið

Skipuleggjendur himinlifandi

Stærstu tónleikum sögunnar lauk um miðnæturbil í gær. Skipuleggjendur Live8 eru himinlifandi með hvernig til tókst en samtals mætti rúmlega milljón manna á tónleikana og talið er að um tveir milljarðar manna hafi séð hluta þeirra í sjónvarpi eða heyrt í útvarpi. Tónleikarnir voru ekki haldnir til að safna fé eins og síðustu Live Aid tónleikar fyrir tuttugu árum. Þeir voru fyrst og fremst til að vekja athygli leiðtoga G8-ríkjanna á kröfum almennings um að grípa til róttækra aðgerða til að útrýma fátækt og hungri í heiminum. Tuttugu og sex milljónir manna sendu sms-skilaboð til stuðnings þessum kröfum, sem ku vera heimsmet. Boðið var upp á um hundrað og sjötíu tónlistaratriði í níu löndum í fjórum heimsálfum. Mismunandi var hversu margir mættu á hvern stað - um sjö hundruð þúsund manns voru við Circo Massimo í Róm, hundruð þúsunda í Fíladelfíu í Bandaríkjunum, tvö hundruð þúsund manns voru í Hyde Park í London og sömuleiðis í mótmælagöngu í Edinborg, en á Rauða torginu í Moskvu var frekar fátt og má ef til vill rekja það til þess að fjórðungur Rússa lifir undir fátæktarmörkum. Nú er þess beðið að leiðtogar G8-ríkjanna fundi í næstu viku og ákveði framhaldið; hversu mikið aðstoð við fátækustu ríki heimsins verður aukin og kannski ekki síður hvernig verður farið að því. Margir eru alfarið á móti því að senda peninga skilyrðislaust til misheiðarlegra ríkisstjórna og fella niður skuldir þeirra. Moeletsi Mbeki, bróðir Thabos Mbekis, forseta Suður-Afríku, skrifar grein í The Mail on Sunday í dag þar sem hann segir: „Að fleygja fé í afrískar ríkisstjórnir er ekki svarið - látið fólkið fá peninga til að byggja upp eigin framtíð. Það er fullfært um það sjálft.“ En Bob Geldof og félögum hefur að minnsta kosti tekist að sjá til þess að heimsbyggðin öll mun fylgjast vel með hverju skrefi G8-leiðtoganna í Skotlandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.