Erlent

Senda Pútín langt nef

Pólska vikuritið Wprost hefur skorað á lesendur sína að senda rússneska forsetanum Vladimír Pútín póstkort sem tímaritið hefur látið gera, þar sem hann er sýndur með langt lyganef eins og Gosi í ævintýrinu alþekkta. Yfir tölvubreyttri myndinni af forsetanum er á pólsku og rússnesku áritunin "Með kveðju til Pútínokkíós" (eftir Pinocchio eins og Gosi heitir á frummálinu). Tilefni þessa tiltækis er kraumandi óánægja margra Pólverja með ræðu þá sem Pútín flutti er þess var minnst með pompi og prakt í Moskvu þann 9. maí að 60 ár voru liðin frá stríðslokum í Evrópu. Að sögn Wprost bar Pútín þar á torg "stalínska túlkun sögunnar" en Pólverjar höfðu gert sér vonir um að í ræðunni myndi Pútín fordæma innrás Sovéthersins í Pólland haustið 1939. Sú innrás var gerð í samræmi við samning Hitlers og Stalíns um að skipta Póllandi á milli sín. Talsmenn Rússlandsstjórnar lýstu í gær áhyggjum yfir því sem þeir kölluðu bylgju and-rússnesks áróðurs í Póllandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×