Erlent

Aðþrengd eiginkona í Hvíta húsinu

Aðþrengd eiginkona truflaði eiginmann sinn gróflega í gærkvöldi þegar hann ætlaði að segja sama gamla brandarann í enn eitt skiptið. Þetta teldist tæpast til tíðinda væri eiginkonan sem um ræðir ekki Laura Bush, eiginkona Bush Bandaríkjaforseta. Laura Bush lætur venjulega lítið fyrir sér fara en í gærkvöldi varð skyndilega breyting þar á og það fyrir framan blaðamannaelítuna í Washington. Þegar Bush forseti hugðist segja brandara sagði hún: „Ekki þennan enn einu sinni." Hún sagði svo að þetta yrði gaman því forsetinn hefði ekki hugmynd um hvað hún ætlaði að fara að segja. Hún hóf mál sitt á því að segja að eiginmaðurinn segðist hæstánægður með að koma í kvöldverðarboð blaðamanna en það væri kjaftæði. Hann væri venjulega kominn í háttinn á þessum tíma. Laura sagðist svo hafa sagt við George um daginn að ef hann vildi binda enda á harðstjórn í heiminum yrði hann að vaka lengur. Svo lýsti hún dæmigerðu kvöldi hjá þeim hjónum og sagði að um klukkan níu væri Bandaríkjaforseti steinsofnaður og að hún horfði á Aðþrengdar eiginkonur með Lynne Cheney, eiginkonu Dicks Cheneys varaforseta. Því næst játaði hún að hún væri aðþrengd eiginkona. Laura sagðist enn fremur vera stolt af eiginmanni sínum. Hann hefði lært heilmikið á búgarði fjölskyldunnar í Texas frá því að hann reyndi á fyrsta ári að mjólka eitt hrossið, en það hafi verið hestur en ekki hryssa. Nú snyrti hann runna og felldi tré, eða eins og dætur hennar kölluðu það: The Texas Chainsaw Massacre. Svar Bandaríkjarforseta við öllum vandamálum á búgarðinum væri að saga það niður með keðjusög. Þess vegna kæmi honum svo vel saman við Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra og Cheney varaforseta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×