Lífið

Batman-menn ánægðir með Ísland

Nýjasta myndin um Batman verður frumsýnd í Sambíóunum á miðvikudag. Um er að ræða heimsfrumsýningu en stór hluti myndarinnar var tekinn upp hér á landi. Framleiðendur eru ánægðir með árangurinn og er ekki óhugsandi að þeir muni taka upp fleiri myndir hérlendis í framtíðinni. Batman mynd þessi er sú fimmta í röðinni en hana prýða ekki ómerkari leikarar en Liam Neeson og Christian Bale. Alls voru 14 mínútur teknar upp hérlendis en tökur tóku sex daga. Alls komu 250 manns að myndinni, þar af 150 Íslendingar, en tökur fóru fram við rætur Svínafellsjökuls í Öræfasveit. Saga Film sá um framleiðslu myndarinnar hérlendis og þykir afar vel hafa tekist til. En Ísland var þó ekki eini staðurinn sem kom til greina þegar verið var að ákveða hvar myndin skyldi tekin að sögn Finns Jóhannssonar, framleiðslustjóra hjá Saga Film, því Alaska og Nýja-Sjáland voru einnig inni í myndinni. Hann telur að Ísland hafi verið valið vegna smæðar landsins - hversu stutt er í alla þjónustu og fjölbreytt landslag á afar litlu svæði. Finnur segir ekki óhugsandi að sömu aðilar muni koma aftur hingað til lands en vill þó ekkert tjá sig frekar um hvort eitthvað sérstakt sé í bígerð. Á undanförnum árum hafa erlendir kvikmyndagerðarmenn í auknum mæli leitað hingað til lands. Finnur segir að þessa þróun muni eflaust halda áfram enda hafi landið upp á margt að bjóða. Og Finnur er ánægður með nýju Batman myndina og segir hana lofa mjög góðu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.