Lífið

Kvennahlaupið á yfir 90 stöðum

Kvennahlaup ÍSÍ fer fram á yfir 90 stöðum hérlendis næsta laugardag, 11. maí. Íslenskar konur á erlendri grund taka einnig þátt og í ár verða skipulögð hlaup m.a. í Álaborg, Brussel, Walvis Bay í Namibíu og Maryland í Bandaríkjunum. Íslenskar konur í Eþíópíu tóku forskot á sæluna um síðustu helgi og hlupu fyrstar Kvennahlaup ÍSÍ í höfuðborginni Addis Ababa (sjá meðfylgjandi mynd). Kvennahlaup ÍSÍ er lang fjölmennasti og útbreiddasti íþróttaviðburður sem haldinn er á Íslandi en árlega taka um 18.000 konur á öllum aldri þátt. Samkvæmt nýlegri könnun Gallup hafa hvorki meira né minna en 54,4% kvenna á aldrinum 16-75 ára tekið þátt í Kvennahlaupi ÍSÍ. Þátttökugjaldið er 1.000 kr og er innifalið í því bolur og verðlaunapeningur. ÍSÍ sér um heildarframkvæmd hlaupsins en kröftugar konur og karlar um land allt sjá um framkvæmd viðburðarins á sínu svæði. Meginmarkmið Kvennahlaupsins er að hvetja og styðja konur á öllum aldri til aukinnar hreyfingar og heilsueflingar. Allar konur geta tekið þátt í hlaupinu á sínum forsendum, óháð aldri og líkamlegri getu. Yfirskrift hlaupsins í ár er „Áfram stelpur!“ Tilgangurinn er að vekja athygli á hversu mikilvægt er fyrir konur, og þá ekki síst ungar stúlkur, að eiga sér heilbrigðar og sterkar fyrirmyndir. Það styrkir sjálfsmynd þeirra og hvetur þær til dáða.   Karlarnir eru ekki síður mikilvægur hluti af hlaupinu og sjá m.a. um framkvæmd, verðlaunaafhendingar og hvatningu á hliðarlínunni. Á síðasta ári sá t.d. Sparisjóðsstjórinn á Grenivík um framkvæmd kvennahlaupsins á staðnum. Nánari upplýsingar um alla hlaupastaði er að finna á www.sjova.is Í Garðabæ verður hlaupið frá Garðatorgi og hefst hlaupið kl. 14. Þátttakendur geta valið um að fara 2, 5, 7 eða 9 km. Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, og Ásthildur Helgadóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, flytja hvatningarávörp fyrir hlaupið og eftir hlaup mun m.a. Heiða Idol-stjarna spila vel valda slagara. Hlaupið hefst kl. 11 í Mosfellsbæ og á Akureyri.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.