Erlent

Segir 500 manns látna í Andijan

Allt að fimm hundruð manns eru talin hafa látist í gær þegar hersveitir í Úsbekistan skutu á þúsundir mótmælenda og tókust á við uppreisnarmenn í Andijan. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir yfirmanni úsbesku mannréttindasamtakanna Appeal sem staddur er í borginni. Sá segist hafa rætt við vitni að atburðinum. Óljósar fregnir hafa borist af mótmælunum sem beindust m.a. gegn forseta landsins, Islam Karimov, en hópur mótmælenda fór fram á afsögn hans. Karimov minntist á blaðamannafundi í dag aðeins á að 10 hermenn hefðu fallið í átökunum í gær en gaf engar upplýsingar um hversu margir óbreyttir borgarar hefðu fallið. Erlendum blaðamönnum hefur verið vísað úr borginni þannig að erfiðlega gengur að afla frétta af ástandinu en þó er vitað að þúsundir manna söfnuðust saman í Andijan í dag þrátt fyrir blóðbaðið í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×