Lífið

Viðtölin ekki til á upptöku

Viðtöl tímaritsins Hér og nú við Ásgerði Guðmundsdóttur, sem Eiríkur Jónsson krafðist í gær að yrðu spiluð í Íslandi í dag, eru ekki til á upptöku. Hins vegar á DV upptöku af því þegar Ásgerður staðfesti að ummæli, sem eftir henni voru höfð í því blaði, séu rétt. Þegar Stöð 2 tók hús á Eiríki Jónssyni, blaðamanni Hér og nú, í dag, til að falast eftir viðtölum sem hann vildi að yrðu spiluð í fréttaþættinum, fengust þau svör að viðtölin í Hér og nú væru ekki til á segulbandi heldur aðeins viðtölin við DV. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í gær sagðist Ásgerður, sem kölluð hefur verið „svikna konan“ í Bubbamálinu, aldrei hafa veitt blaðinu Hér og nú viðtal. Hún segist hafa verið sorgmædd og reið og veitt samtölin að blaðamennirnir hafi veitt sér „sína samúð“. Svo spyrji þeir spurninga og hún viðurkennir í geðshræringu að því sem haldið sé fram sé satt og „bingó: það er komið viðtal.“  Þetta segir Eiríkur rangt og í Íslandi í dag í gær krafðist hann þess að spiluð yrði upptaka af viðtölum sínum við Ásgerði sem myndu staðfesta að hún færi með rangt mál. Spurður hvort það sé ekki bratt hjá honum að krefjast þess að upptakan sé spiluð þegar hún er ekki til svaraði Eiríkur: „Þetta var mjög bratt í gær jú, það er alveg rétt.“ En Eiríkur sagði samt að Mikael Torfason, ritstjóri DV, hefði undir höndum viðtöl sín og Símons Birgissonar, blaðamanns á blaðinu, við Ásgerði fyrir DV og þar mætti að minnsta kosti nálgast hluta af því sem hann lofaði í gær. Í ljós kom hins vegar að Mikael hafði ekki undir höndum nein viðtöl frá Eiríki. Símon átti hins vegar upptöku af því þegar Ásgerður staðfestir að ummæli sem eftir henni voru höfð í DV séu rétt. Þessi viðtöl fékk fréttamaður að heyra í dag og þar staðfesti Ásgerður ummæli sín. Hins vegar var ekki hægt að fá viðtölin til spilunar, eins og Eiríkur lofaði í gær, þar sem DV hefur það fyrir reglu að láta ekki viðtöl blaðamanna sinna af hendi. Ásgerður segir í dag að hún hafi ekkert við það að bæta sem hún hafi þegar sagt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.