Sport

Góður sigur ÍA í Eyjum

"Við hittum ekki á góðan leik í dag hverju sem um er að kenna. Við eigum verðugt verkefni í næstu umferð þar sem við höfum aðeins hlotið 2 stig á útivelli í sumar.  Við þurfum að tjasla okkur saman og finna lausn á því hvað við vorum að gera rangt í dag," sagði Guðlaugur Baldursson, þjálfari ÍBV, eftir að Skagamenn höfðu unnið sannfærandi 2-0 sigur á Hásteinsvelli þar sem Eyjaliðið hefur tekið 15 af þeim 17 stigum sem liðið hefur í Landsbankadeildinni.  Sigurður Ragnar Eyjólfsson kom ÍA yfir á 56. mínútu en þá hafði slök vörn Eyjamanna ekki náð að stöðva útspark frá Páli Gísla Jónssyni, ágætum markverði ÍA liðsins, og boltinn endaði hjá Sigurði sem var kominn einn í gegn og honum brást ekki bogalistinn.  Andri Júlíusson bætti svo við öðru marki undir lok leiksins þegar hann skallaði boltann inn af stuttu færi eftir hornspyrnu Skagaliðsins.  "Þetta var rosa barátta og það er alltaf mjög erfitt að spila hérna í Eyjum.  Við vissum að Eyjamenn myndu berjast fyrir lífi sínu í þessum leik og þeir gerðu það.  Um leið og við náðum hins vegar að skora var pressan minni á okkur og við gátum legið aðeins til baka.  Leikurinn opnaðist svo aðeins undir lokinn aftur þar sem við bættum við marki en þetta var mjög góður sigur í dag í erfiðum baráttuleik," sagði Sigurður Ragnar sem hefur fundið sig vel í framlínu Skagamanna í síðustu umferðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×