Innlent

Látinn þegar lögregla kom að

Lögreglumenn á vettvangi. Mikill eldur kom upp í bifreiðinni eftir að hún hafnaði utan vegar og tókst vegfarendum sem komu að slysinu ekki að slökkva eldinn með handslökkvitæki.
Lögreglumenn á vettvangi. Mikill eldur kom upp í bifreiðinni eftir að hún hafnaði utan vegar og tókst vegfarendum sem komu að slysinu ekki að slökkva eldinn með handslökkvitæki.

Þrjátíu og átta ára karlmaður lést þegar bifreið sem hann ók lenti út af Svalbarðsstrandarvegi við bæinn Sætún í austanverðum Eyjafirði í gærmorgun. Eldur kom upp í bifreiðinni, sem hafnaði á hvolfi, en vegfarendum sem að slysinu komu tókst ekki að slökkva eldinn með handslökkvitæki.

Lögreglunni á Akureyri var tilkynnt um slysið klukkan 5.13 og þegar lögreglan og Slökkvilið Akureyrar komu á staðinn skömmu síðar fannst einn karlmaður í bifreiðinni og var hann úrskurðaður látinn. Daníel Snorrason, lögreglufulltrúi á Akureyri, segir tildrög slyssins ekki að fullu ljós en rannsókn þess er ekki lokið. Hann vildi ekki útiloka að ölvun ætti hlut að máli en sagðist ekki geta fullyrt að svo hefði verið.

Ekki er hægt að birta nafn hins látna að svo stöddu en hann var búsettur á Akureyri, ókvæntur en þriggja barna faðir.

Slysið í gærmorgun var 19. banaslysið í umferðinni það sem af er ári, en allt árið í fyrra létust 23 í umferðarslysum á Íslandi og sami fjöldi árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×