Innlent

Aldrei fleiri börn í Barnahús

Frá árinu 1998 hafa á annað þúsund ábendingar um kynferðisbrotamál borist Barnahúsi.
Frá árinu 1998 hafa á annað þúsund ábendingar um kynferðisbrotamál borist Barnahúsi.

Það sem af er árinu 2005 hefur 227 börnum verið vísað í Barnahús vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi gagnvart þeim. Er það metfjöldi ábendinga. Að sögn Vigdísar Erlendsdóttur, forstöðumanns Barnahúss er fyrra met, samanborið við sama árshluta, 210 börn á árinu 2003.

Á annað þúsund mál hafa borist inn á borð Barnahúss frá stofnun þess 1998. Rúmlega 200 viðtöl hafa verið tekin þar við börn á aldrinum tveggja til fimm ára á sama tímabili. Þá hafa 300 viðtöl verið tekin við börn á aldrinum 6 til 9 ára og 410 viðtöl við börn á aldrinum 10-18 ára. Varðandi alvarleika brota hefur komið í ljós að meintir gerendur hafa brotið mjög alvarlega á þeim börnum sem þeir beita kynferðislegu ofbeldi, því í 77 prósentum tilvika eru brotin orðin nokkuð gróf eða jafnvel mjög gróf að sögn Vigdísar.

Vigdís segir að mun fleiri tilkynningar berist um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum hér á landi en á öðrum Norðurlöndum. Umræða um þessi mál sé meiri hér á landi en víða annars staðar og fólk því betur upplýst. Þá skiptir miklu máli að fólk getur tilkynnt grun sinn í neyðarsímann 112.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×