Innlent

Einungis ein tilnefning borist

Einungis ein tilnefning hefur borist fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar um fjölskylduvænt fyrirtæki í bænum. Frestur til að skila tilnefningum hefur verið framlengdur til 20. ágúst næstkomandi. Á vef bæjarfélagsins kemur fram að í fjölskyldustefnu Reykjanesbæjar sé ákvæði um að verðlauna fjölskylduvæn fyrirtæki eða stofnanir, annars vegar fyrirtæki eða stofnun rekið af Reykjanesbæ og hins vegar fyrirtæki í einkarekstri staðsett í bænum. "Ég hef nú ekki trú á því að hér finnist ekki fjölskylduvæn fyrirtæki," segir Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari og staðgengill bæjarstjóra Reykjanesbæjar, og telur frekar að sumarið hafi latt forsvarsmenn fyrirtækja til að sækjast eftir tilnefningum. "Svo sýnist mér nú að þetta hefði mátt auglýsa betur, en það verður gert núna." Viðurkenningar verða veittar í tengslum við Ljósanótt 2004, menningarhátíð Reykjanesbæjar sem haldin verður dagana 2. til 5. september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×