Innlent

Sumarblíða en engin met

Einmuna veðurblíða var á Suður- og Austurlandi í dag. Íbúar höfuðborgarinnar gerðu sitt besta til að sinna daglegu amstri utan dyra, hvort sem um var að ræða tómstundir, vinnu eða líkamsrækt. Engin hitamet voru slegin í dag en heitast var á Þingvöllum þar sem hitinn fór upp í 26,2 stig um miðjan dag. Í Skaftafelli náði hitinn upp í 24, 4 stig og hitinn á Mývatni klukkan þrjú var 22,5 stig. Um og yfir 20 stiga hiti hefur svo verið á hálendinu. Til að kæla sig í mestu hitunum brá fólk á það ráð að baða sig í ám og vötnum landsins og um að gera að nýta tækifærið því veðurfræðingar búast við að á næstu dögum fari hitinn hægt og rólega niður á við. Fylgifiskur hitanna er mistur sem legið hefur yfir og fólk þekkir helst frá heitari löndum. Það er svo sem lítil rómantík að baki þeim því þetta er ryk og óhreinindi, aðallega frá Evrópu, en eitthvað berst af hálendinu vegna þurrka. Erlendir ferðamenn vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið í blíðunni á Þingvöllum í dag en sumir vilja allt annars konar veður, og þá helst alíslenskt rok og rigningu. Hjón frá Ástralíu sem hafa upplifað íslenska rigningu voru hins vegar himinlifandi.  Í Reykjavík brugðu menn á það ráð að færa ýmsan rekstur og þjónsutu út. Villi Þór rakari snyrti kolla undir berum himni. Taflmenn Hróksins þoldu illa við inni í sumarhitanum og þustu út til að tefla fjöltefli við danskan stórmeistara. Stæltir kroppar sem æfa hjá líkamsræktarstöðinni Laugum var svo boðið upp á að svitna, bæði vegna áreynslu og sólskins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×