Innlent

Af nógu að taka á Suðurlandi

Það var af nógu að taka á Suðurlandi fyrir þá sem lögðu í ferðalag í tilefni af verslunarmannahelginni. Fjölbreytt dagskrá var í boði víða í landshlutanum, og höfðu menn heppnina með sér, því þrátt fyrir leiðinlega veðurspá, rættist úr veðrinu og var einstök veðurblíða, nánast hvar sem drepið var niður fæti. Flugmenn og aðrir áhugamenn um flug skelltu sér í Fljótshlíðina og nutu veðurblíðunnar um leið og þeir sinntu áhugamáli sínu. Flugvélar af ýmsu tagi voru á svæðinu og léku menn listir sínar með tilþrifum. Ungir sem aldnir fylgdust með, en flugmálafélag Íslands hefur skipulagt alla helgina, með það fyrir augum að gleðja sem flesta. Boðið var upp á flugsýningar af ýmsu tagi, og fallhlífar mættu vitaskuld á svæðið, til þess að láta ekki sitt eftir liggja á þessari fjölskykduvænu flughátið. Í félagsheimilinu Árnesi var félag harmonikkuunnenda í Reykjavík með skipulagða dagskrá um verslunarmannahelgina, og þegar við litum inn voru tónleikar að hefjast. ÁSólheimum í Grímsnesi var boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Þar var frábært veður þegar Stöð 2 bar að garði og stemningin var vægast sagt góð. Listamenn á staðnum voru að undirbúa stórt atriði og ríkti mikil eftirvænting. Mikill mannfjöldi kom í Sólheima í dag og var þétt setinn bekkurinn þegar boðið var upp á sumarkabarett leikfélags Sólheima.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×