Erlent

Beckham-hjónin í stórum hlutverkum

David Beckham og Victoria spúsa hans eru án efa átrúnaðargoð en líkast til hafa þau aldrei verið nær guðsímyndinni en einmitt nú. Páfagarði mislíkar stórlega hlutverk þeirra hjóna í fæðingu Krists. Fæðing Jesú Krists hefur nú verið endursköpuð á vaxmyndasafni Madame Tussauds í Lundúnum en andlit Maríu meyjar, Jósefs, vitringanna og engla koma ótrúlega kunnuglega fyrir sjónir - og ekki af biblíumyndum. Ef vel er að gáð kemur í ljós að það eru goð samtímans sem leika aðalhlutverkin í uppstillingunni, með Beckham-hjónin David og Victoriu fremst í flokki sem Jósef og María. Uppátækið hefur vakið litla hrifningu í Páfagarði sem segir þetta reginhneyksli, ef ekki hreinlega guðlast. Leikararnir Samuel L. Jackson og Hugh Grant eru fjárhirðar, poppdísin Kylie Minogue er engill og þeir Tony Blair og George Bush eru meðal vitringanna - sem virtist trufla sýningargesti meira en umræða um guðlast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×