Erlent

Sigurinn vís í Úkraínu

Sigurinn er vís að mati stjórnarandstöðunnar í Úkraínu eftir að þing landsins samþykkti lög sem tryggja að þjóðin geti valið sér forseta á ný. Eftir töluverð átök náðist loks samkomulag um frumvarp sem allir gátu sætt sig við en á mánudaginn leit út fyrir að breytingarnar næðu í gegn. Ekkert varð af því þar sem ekki náðist sátt um neina af þeim tillögum sem fyrir lágu. En í dag náðist málamiðlun. Viktor Júsjenko, forsetaframbjóðandi úr röðum stjórnarandstöðu, segir stjórnarandstöðuna hafa slegið verulega af kröfum sínum. Hann sagði aðalatriði deilunnar vera að ekki hafi verið hægt að sýna fram á að kosningarnar 21. nóvember hefðu farið heiðarlega fram. Embætti forseta verður að kosningunum loknum ekki jafn valdamikið og nú, en það var ein meginkrafa fráfarandi forseta, Leoníds Kútsma. Stjórnarandstaðan lítur engu að síður á niðurstöðuna sem algjöran sigur og í röðum hennar eru menn sannfærðir um sigur þann 26. desember næstkomandi. Forsætisráðherrann Janúkovítsj brýndi hins vegar stuðningsmenn sína og sagði þeim að búa sig undir að verja sigurinn, bæri hann sigur úr býtum, því ugglaust myndi stjórnarandstaðan reyna að beita sömu brögðum á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×