Erlent

Saumuðu að Rumsfeld

Bandarískir hermenn í Kúveit sem hlýddu á ræðu á ræðu Donalds Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, áður en þeir héldu af stað til Íraks saumuðu að ráðherranum í fyrirspurnum og voru auðheyrilega ósáttir við eitt og annað sem tengist því hvernig hernaðaraðgerðum er háttað í Írak þó að þeir hafi ekki sett sig upp á móti stríðinu sjálfu. Eitt af því sem hermennirnir voru ósáttir við var að bílar þeirra væru ekki nógu vel brynvarðir. "Hvers vegna þurfum við hermenn að grafa eftir brotajárni og skemmdum brynvörnum til að bæta brynvörn við bílana okkar?" spurði Thomas Wilson, einn hermannanna sem bjuggu sig undir að fara á hættuslóðir í Írak. Rumsfeld svaraði því til að hermenn færu í stríð með þeim búnaði sem væri til reiðu en reynt væri að bæta úr þessu. Hermennirnir kvörtuðu líka undan því að vera þeirra í hernum væri framlengd sjálfkrafa og því að herdeildir fastahermanna fengju betri búnað en þjóðvarðliðar og varaliðsmenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×