Erlent

Einn stjóri yfir allar stofnanir

Bandaríkjaþing hefur samþykkt víðtækustu breytingar á yfirstjórn og starfsemi njósna- og lögreglustofnanna Bandaríkjanna frá stofnun bandarísku leyniþjónustunnar CIA skömmu eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Breytingarnar fela meðal annars í sér að einn yfirmaður verður settur yfir allar njósnastofnanir og nýtt fyrirkomulag er tekið upp til að miðla upplýsingum um hryðjuverkastarfsemi. Lögin sem Bandaríkjaþing samþykkti eru svar við gagnrýni nefndar sem rannsakaði aðdraganda hryðjuverkárásanna 11. september 2001. Hún komst að þeirri niðurstöðu að rígur milli fimmtán njósna- og lögreglustofnana hefði leitt til þess að ekki var skipst á upplýsingum eins og æskilegt væri og að það hefði dregið úr möguleikum á að koma í veg fyrir hryðjuverk. "Þetta á eftir að auka þær upplýsingar sem herinn okkar fær og hjálpa til við að tryggja öryggi borgaranna heima fyrir," sagði öldungadeildarþingmaðurinn Susan Collins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×