Erlent

Föngum misþyrmt eftir Abu Ghraib

Bandarískir hermenn héldu áfram að misþyrma föngum í Írak eftir að komið var upp um fangamisþyrmingar í Abu Ghraib-fangelsi síðasta vor. Þetta kemur fram í skjölum sem gerð voru opinber í fyrradag að kröfu bandarísku mannréttindasamtakanna American Civil Liberties Union. Meðal þess sem greint er frá í skjölunum er að tveimur starfsmönnum leyniþjónustu varnarmálaráðuneytisins hafi verið hótað hefndum ef þeir greindu frá misþyrmingum á föngum í Bagdad sem þeir urðu vitni að í júní, mörgum vikum eftir að upp komst um atburðina í Abu Ghraib. Frá þessu var greint í The New York Times í gær. Fyrr í vikunni komst AP-fréttastofan yfir skjöl sem sýna að bandaríska alríkislögreglan, FBI, setti sig upp á móti þeim aðferðum sem hefur verið beitt í Guantanamo þar sem hundruðum fanga frá Mið-Austurlöndum er haldið. FBI sagði að óþarfa hörku væri beitt og að upplýsingarnar sem fengjust þannig væru óáreiðanlegar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×