Erlent

Mladic á launum hjá stjórn Serbíu

Ratko Mladic, serbneski herforinginn sem ákærður hefur verið fyrir fjöldamorðin í Srbrenica í Bosníu, var á launaskrá júgóslavneska hersins til 2001 og á eftirlaunum hjá her Bosníu-Serba til 2002. Þetta kemur fram í gögnum sem bosníska blaðið Dnevni Avaz hefur komist yfir. Stjórnin í Belgrad lét sem Mladic og aðrir hermenn Bosníu-Serba hefðu verið henni óviðkomandi frá 1992. Jafnvel þótt augljóst hafi þótt að tengslin héldust hefur gengið erfiðlega að færa sönnur á þau, til dæmis í stríðsglæparéttarhöldum yfir Slobodan Milosevic sem nú standa yfir í Haag. Talið er að Mladic sé í felum í Serbíu. Mikill þrýstingur er á stjórnvöld í Belgrad að finna hann og framselja og má búast við að sá þrýstingur aukist nú enn þegar sönnur virðast færðar á að hann hafi verið á launaskrá allt þar til Milosevic hrökklaðist frá völdum. Jafnframt mun þrýstingur aukast á stjórn Bosníu Serba að láta til skarar skríða gegn Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtoga þeirra, sem talinn er vera í felum í Bosníu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×