Innlent

Reki velli í Reykjavík og Keflavík

Það er ekkert samhengi milli framtíðar Reykjavíkurflugvallar og þess hvort Íslendingar muni hugsanlega taka að sér auknar byrðar í rekstri Keflavíkurflugvallar að mati Jóns Karls Ólafssonar, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands. "Ef Íslendingar taka þátt í rekstri Keflavíkurflugvallar að öllu eða einhverju leyti þá leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að við höfum ekki efni á því að reka flugvöll í Reykjavík," segir Jón. "Við munum áfram reka flugvelli á Akureyri og Egilsstöðum. Hvers vegna ekki í Reykjavík?" Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, sagði á þingi fyrir helgi að skapast hefðu nýjar aðstæður til að flytja innanlandsflug til Keflavíkur eftir að Davíð Oddsson, utanríkisráðherra skýrði frá því að Íslendingar hefðu boðist til að taka að sér auknar byrðar í rekstri vallarins. Jón Karl segir að það myndi draga úr innanlandsflugi ef flugi til Reykjavíkur yrði hætt. Þá fari umferðin út á vegina með tilheyrandi kostnaði og áhættu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×