Innlent

Menn eiga að hlýða lögum

Í lögum eru ákvæði um viðurlög sem geta komið til greina ef fjarvera kennara undanfarna daga telst brot á lögum. Starfsmanni er t.d. skylt að vinna án endurgjalds yfirvinnu allt að tvöföldum þeim tíma sem hann hefur verið frá starfi án gildra forfalla og hlíta því að dregið sé af launum sem því nemur. Einnig getur komið til brottvikningar um stundarsakir eða fyrir fullt og allt. Óljóst er hvort skólayfirvöld muni ganga svo langt að krefjast refsingar yfir þeim kennurum sem hafa gerst brotlegir við lög. Verkföll og aðrar aðgerðir til að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög ákveða eru óheimil samkvæmt lögum ríkisstjórnarinnar sem sett voru til að stöðva verkfall kennara. Sigurður Líndal lagaprófessor segir ljóst að verkfallið hafi verið bannað og kennarar verði því að sanna veikindi sín með læknisvottorði og eigi þá þann rétt. Annars sé um lagabrot að ræða. "Auðvitað er óþolandi að menn komist upp með að brjóta lögin jafnvel þó að þeir séu á móti lögunum. Menn eiga að hlýða lögunum. Ég held að það sé mjög sjaldgæft að menn brjóti svona lög," segir Sigurður. "Mér finnast þessi hópveikindi ekki mjög sannfærandi. Þó að kennarar segist vera miður sín og illa farnir á taugum þá trúi ég því ekki að þeir séu svona illa farnir. Það er ekki eins og það sé verið að svelta þá. Ef þeir syltu og þyrftu að leggjast í ólöglegar aðgerðir til að bjarga lífi sínu þá gildir kannski öðru máli en ég held það sé kannski óþarfi að velta slíku fyrir sér."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×