Innlent

Stjórnarandstaðan elur á falsvonum

Stjórnarandstaðan hvetur ríkið til að treysta tekjustofna sveitarfélaga svo að unnt sé að ná samningum við kennara. Menntamálaráðherra fullyrðir að slíkt myndi ógna stöðugleikanum og sakar stjórnarandstöðuna um að ala á falsvonum. Á Alþingi voru menn vissulega sammála um alvarleika þeirrar stöðu sem upp er komin. Þá greindi hins vegar verulega á um hver bæri ábyrgðina og hvað væri nú til ráða. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði allt tal um að ríkið eigi að setja meiri pening inn í kennaradeiluna óábyrgt og frekar í ætt við tækifærismennsku. Það væri skammgóður vermir á lausn deilunnar fyrir samningsaðila því stöðugleiki í efnahagsmálum væri allra mál og umsamdar kauphækkanir yrðu étnar strax upp af verðbólgu. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði lausatök ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra á efnahagsmálunum hafa leitt til þess að verðbólgan sé farin úr böndunum. Það væri ein af ástæðum þess að kennarar hafi ekki treyst sér til að samþykkja miðlunartillögu ríkissáttasemjara og sagði Össur stjórnina því eiga töluvert stóra sök á því að þannig hafi farið. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, sagði ríkisstjórnina eiga að koma með yfirlýsingu um að hún ætli að treysta tekjustofna sveitarfélaganna því á slíkri yfirlýsingu verði deilan leyst. Menntamálaráðherra óskaði í kjölfarið eftir samræmi í málflutningi stjórnarandstöðunnar í stað þess að ala á falsvonum. Hún endurtók að það leysti ekki deiluna að setja meiri pening inn í deiluna og sagði svo málflutning stjórnarndstöðunnar ekki boðlegan.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×