Erlent

Segist sterkari gegn hryðjuverkum

George Bush, forseti Bandaríkjanna, segir að úrslit forsetakosninganna eftir rúma viku skipti sköpum fyrir baráttuna gegn hryðjuverkum. John Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata, segir að á síðastliðnum fjórum árum hafi Bush einungis tekist að hræða bandarísku þjóðina. Spennan fer nú að magnast fyrir forsetakosningarnar sem fram fara í Bandaríkjunum eftir átta daga, eða 2. nóvember næstkomandi. Nýjustu skoðanakannanir sýna að George Bush, forseti, hefur örlítið forskot á John Kerry, frambjóðanda demókrata. Bush var á ferðalagi í Nýju Mexíkó um helgina og lagði hann áherslu á að Bandaríkjamenn gengju til kosninga á tímum stríðs og ógna. Hann sagði hryðjuverkaógnina enn til staðar og það skipti sköpum í baráttunni gegn hryðjuverkum að hann yrði áfram forseti. Bandaríkin mættu ekki sýna nein merki um veikleika og það myndi ekki gerast á meðan hann sæti í Hvíta Húsinu. John Kerry var á kosningaferðalagi í Flórída um helgina, og hélt þaðan til New Hampshire. Hann sagði að það eina sem Bush hefði tekist á síðastliðnum fjórum árum, væri að hræða bandarísku þjóðina. Hann gagnrýndi bandarísk stjórnvöld fyrir vanrækslu í Írak. Hann sagði Bush fyrst og fremst tala mikið, en honum hefði mistekist hrapallega með aðgerðum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×