Innlent

Frestur landeigenda framlengdur

Frestur landeigenda á Héraði til andmæla vegna fyrirhugaðs eignarnáms Landsvirkjunar á fimm jörðum hefur verið framlengdur um viku. Einn landeigendanna segir fullkomlega óeðlilegt að iðnaðarráðuneytið, sem sé beinn aðili að málinu, eigi að ákveða hvort Landsvirkjun fái leyfi til þess að leggja háspennulínu á Héraði. Ágúst Sindri Óskarsson, lögfræðingur Sigurðar Arnarsonar, eins landeigendanna fimm, fékk í vikunni framlengingu á þriggja vikna fresti skjólstæðings síns til þess að andmæla fyrirhuguðu eignarnámi Landsvirkjunar. Sigurður og lögfræðingur hans hyggjast leggja fram greinargerð um málið strax eftir helgi þar sem meðal annars verður bent á hve óeðlilegt það sé að iðnaðarráðuneytið, sem sé beinn aðili að málinu, eigi að ákveða hvort háspennulína verði lögð í gegnum jarðirnar fyrir austan. Í fréttum Stöðvar 2 þann 19. júlí síðastliðinn lýsti Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytisins, því yfir að línan yrði lögð hvað sem andmælum liði. Það væri búið að ákveða. Þetta segir Sigurður algerlega óeðlilegt. Í fyrsta lagi sé sveitarfélagið á Austur-Héraði ekki búið að veita framkvæmdaleyfi og í öðru lagi sé um að ræða þessi beinu tengsl iðnaðarráðuneytisins að málinu. Það hljóti því að vera einhver annar sem eigi að kveða upp úr með hvort línan verði lögð eða ekki. Aðspurður hvort hugsanlegt sé að ráðuneytið sé vanhæft í málinu segir Sigurður svo vera. Myndin er af gasaflsstöð Landsvirkjunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×