Innlent

Viftur seljast og laugar loka

Sjaldan eða aldrei hafa rafmagnsviftur selst jafn vel í höfuðborginni og nú enda eru þær þarfaþing til að komast í gegnum heita, langa vinnudaga - þar sem jafnvel sundlaugum er lokað vegna veðurs.  Til marks um hitamolluna í borginni eru vifturnar víða uppseldar. Byko átti enga um hádegisbil í dag og Húsasmiðjan átti ekki nema átta. Smærri söluaðilar gleðjast eðlilega yfir þessari óvæntu vertíð. Haukur Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Glóey, hafði til dæmis selt á annað hundrað viftur í vikunni og var í skýjunum yfir því. Á sama tíma og raftækjasalar gleðjast má segja að fastagestir Vesturbæjarsundlaugar beri skarðan hlut frá borði. Laugin er vatnslaus. Það er kominn tími á viðgerðir og viðhald en tímasetningin hefur ekkert með andstyggilegheit að gera. Kristján Magnússon sundlaugarvörður segir að spáð hafi verið þurru og góðu veðri og því hafi verið ákveðið að nýta tækifærið og mála laugina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×