Innlent

Kópavogur greiðir meira

Kópavogsbær hefur greitt mun hærra verð fyrir vatn frá Orkuveitu Reykjavíkur undanfarin ár en önnur bæjarfélög. Það hefur kostað bæjarfélagið yfir sjötíu milljónir króna. Aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur undrast að Kópavogsbær hafi ekki reynt að ná verðinu niður. Reykjavík og Kópavogur deila nú um eignarhald á landi í Vatnsendakrikum þar sem Kópavogur vill bora eftir vatni og leiða inn í bæinn. Umræður um vatnsverð og vatnsveitumál milli sveitarfélaganna eru þó ekki nýjar af nálinni. Kópavogsbær greiðir til dæmis þremur krónur meira fyrir hvert vatnstonn en Mosfellsbær og Setljarnarnes, sem einnig kaupa vatn af Orkuveitu Reykjavíkur. Árið 1997 höfðu samningar náðst um að Kópavogur greiddi sama verð og hin bæjarfélögin en því hafnaði bæjarstjórnin. Ásgeir Margeirsson, aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir Kópavogsbæ hafa álitið verðið ósanngjarnt og óskað eftir úrskurði um verðið. Það endaði með því að að úrskurðað var töluvert hærra verð, eftir yfirmat, heldur en samið hafði verið um. Vatnið hefur svo verið selt Kópavogi samkvæmt því verði síðan að sögn Ásgeirs. Aðspurður hvort ekki hafi verið óskað eftir við Orkuveituna um að verðið yrði lækkað segir Ásgeir svo ekki vera, Orkuveitunni til undrunar. Þeir séu hins vegar alveg til viðræðna um það. Að mati fulltrúa Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Kópavogs er þetta ótrúlegt aðgerðarleysi í máli sem varðar sveitarfélagið og íbúa þess miklu. Bærinn greiðir um 12-13 milljónum meira á ári, en ef þeir nytu sömu kjara og hin sveitarfélögin og boðið var upp á fyrir átta árum. Ekki náðist í Sigurð Geirdal, bæjarstjóra Kópavogs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×