Innlent

Pólitísk ofstæki kostar stórfé

"Pólitískt ofstæki Gunnars hefur kostað Kópavogsbúa 50 til 60 milljónir," segir Flosi Eiríksson, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, í framhaldi af því að Reykjavíkurborg synjaði Kópavogsbæ að leggja vatnsleiðslu yfir sitt land. Gunnar I. Birgisson lýsti synjuninni sem árás Vallhallar á sjálfstæðismenn í Kópavogi í Fréttablaðinu í vikunni. Flosi segir að þegar bæjarráð Kópavogs hafi fellt samning um vatnsverð þar sem bærinn átti að greiða 8,36 krónur fyrir rúmmetrann af köldu vatni árið 1995 hafi það kostað bæjarbúa tæpar 53 milljónir. Málið hafi farið í mat hjá dómskvöddum matsmönnum sem gerðu Kópavogsbúum að greiða 11,69 krónur fyrir rúmmetrann. Nær hefði verið að ganga til samninga líkt og Garðabær og Seltjarnarnes gerðu. Flosi segir að frá árinu 1996 hafi forystumenn bæjarins aldrei óskað eftir formlegum viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur. "Yfirlýsingar oddvita Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi að undanförnu um að aldrei verði samið við Orkuveituna meðan R-listinn fer með stjórn borgarinnar hafa gefið tilefni til að efast um að hagsmunir bæjarbúa séu honum efst í huga," segir Flosi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×