Innlent

Sáttagreiðsla upp á tæpan milljarð

Hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software í Noregi, sem Íslendingurinn Jón S. von Tetzchner stýrir, fékk greiddar á árinu rúmlega 900 milljónir króna í sáttagreiðslu í dómsmáli. Ekki fást nánari upplýsingar um tilurð greiðslunnar en Michelle Valdivia, upplýsingafulltrúi Opera, segir að ákvæði sáttarinnar komi í veg fyrir að fyrirtækið tjái sig frekar um málið. Það sem af er ári nema heildartekjur Opera því tæplega 1,4 milljörðum íslenskra króna, eða um 132,5 milljónum norskra. Hálfsársuppgjör Opera var birt í gær. Tekjur af hefðbundinni starfsemi aukast um 20,5 prósent milli ára. Tekjur af starfsemi fyrirtækisins námu á fyrsta helmingi ársins rúmum 242 milljónum íslenskra króna (23,2 milljónum norskum) en á sama tíma í fyrra námu þær rúmum 200 milljónum íslenskra króna. Fyrir skatta (EBIT) er hagnaður af starfsemi Opera upp á um 940 milljónir íslenskra króna samanborið við 25 milljón króna tap á sama tíma í fyrra. "Við búumst við auknum tekjum í kjölfar aukinna umsvifa fyrirtækisins bæði í sölu og á markaði," er í tilkynningu haft eftir Jóni S. von Tetzchner, forstjóra fyrirtækisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×