Innlent

Aðild þýðir afsal

Aðild Íslendinga að Evrópusambandinu myndi kosta afsal á stjórn fiskveiða, að sögn Bens Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Bretlands. "Ef sérstök undanþága yrði gerð fyrir Íslendinga sem gæfi ykkur fullt vald á fiskimiðunum væri mjög erfitt að neita öðrum aðildarríkjum ESB um hið sama. Það myndi leiða til þess að sameiginleg fiskveiðistefna ESB liðaðist í sundur. Það er þörf á sameiginlegri fiskveiðistefnu og ef hún væri ekki til staðar þyrfti að koma henni á því fiskurinn virðir ekki landamæri. Við verðum að vernda fiskistofnana í samvinnu við önnur lönd sem veiða úr þeim," segir Bradshaw. Hann segir að mjög erfitt yrði að samþykkja að Íslendingar fengju fullt forræði yfir fiskimiðunum. "Einfaldlega vegna þess að ég sé það ekki gerast að ESB myndi koma á 200 mílna lögsögu fyrir öll aðildarríki. Það sem við sjáum fyrir okkur er mun frekar það að breytingarnar á fiskveiðistefnunni verði til þess að hún verði sveigjanlegri og betur verði hægt að sníða hana að þörfum hvers og eins. Til dæmis verður í haust tekið upp sérstakt stjórnsvæði fiskveiða í Norðursjó sem varðar löndin sem eiga fiskveiðihagsmuni þar. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert innan ESB," segir Bradshaw. "Ef við getum sýnt fram á það að innan fiskveiðistefnu ESB sé fiskveiðistjórnunarkerfi sem stuðli að sjálfbærum fiskistofnum og arðsömum sjávarútvegi, hvert sem stjórnunarkerfið verður, verður það ákjósanlegt fyrir Íslendinga að taka þátt í því." Sjá frekari umfjöllun og viðtal við Ben Bradshaw hér



Fleiri fréttir

Sjá meira


×