Innlent

Fá ekki að leggja vatnslögn

Bæjarstjórinn í Kópavogi furðar sig á því að borgarstjórn Reykjavíkur skuli neita að leyfa Kópavogsbæ að leggja vatnslögn um land borgarinnar. Hann telur að ekki sé heil brú í röksemdafærslu Reykjavíkurborgar og er reiðubúinn að fara með málið fyrir dómstóla. Sigurður Geirdal, bæjarstjóri í Kópavogi er ekki með neina tæpitungu þegar hann tjáir sig um neitun Reykjavíkurborgar um vatnslögnina. Hann segir að með þessu sé verið að færa samskipti bæjarfélaganna langt aftur í tímann. Kópavogsbær keypti nýlega nýtingarrétt á vatni í hinum svokölluðu Vatnsendakrikum, í Heiðmörk, en eignarhald á því landi hefur verið nokkuð umdeilt. Í kjölfarið sótti Kópavogsbær um leyfi Reykjavíkurborgar til þess leggja vatnsleiðslu um land borgarinnar í Heiðmörk, til Kópavogs. Reykjavíkurborg synjaði í gær, um þetta leyfi, og ber fyrir sig deilur um landa- og lögsögumörk. Þetta svar telur bæjarstjóri Kópavogs vera út í hött. Hann segist mjög undrandi og vonsvikinn því þetta sé ekki viðtekinn háttur í samskiptum sveitarfélaga í dag. Hann segir þá röksemdafærslu Reykjavíkurborgar að bíða verði eftir áliti Hálendisnefndar vera einungis til þess ætlaða að drepa málinu á dreif. Hann segir landið sem Kópavogsbær ætli að bora í, ótvírætt í eign Kópavogsbæjar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×