Innlent

Flóð í Jöklu í hámarki annað kvöld

Búist er við að flóðin í Jöklu nái hámarki annað kvöld og rennslið verði þá álíka mikið og þegar það varð mest á fimmtudag í síðustu viku. Þetta er samkvæmt reiknilíkani verkfræðistofunnar Vatnaskila, sem spáir fyrir um rennsli út frá veðurspá og hefur aðferðin reynst áreiðanleg. Upphaflega var hún fundin upp til að reikna vatnsrennsli aftur í tímann miðað við gamlar veðurupplýsingar, þar sem vatnamælingar lágu hinsvegar ekki fyrir. Varnir núna eru allar mun öflugri en í síðustu viku þannig að menn eru nú rólegir að sögn Sigurðar Arnaldssonar hjá Landsvirkjun. Brúin yfir Jöklu fór á bólakaf í gærkvöldi þótt vatnsrennsli framan af degi gæfi vísbendingar um að ekki yrði flóð í gærkvöldi. Vatnsborðið fór upp í 478 metra yfir sjávarmál og vantaði tuttugu metra upp á að það næði hæð varnargarðsins ofan stíflustæðisins, þar sem vinna er hafin á ný eftir hátt í viku hlé.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×