Innlent

Skaut úr hreindýrariffli

Vopnaður maður braust inn í tómt hús í Aðalstrætinu á Akureyri á föstudagskvöldið, hleypti endurtekið skotum úr veiðiriffli utan húss og var handtekinn af lögreglunni eftir klukkutíma langt umsátur. Engan sakaði við atburðinn en maðurinn, sem er á þrítugsaldri, er talinn hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar atvikið átti sér stað. Lögreglunni á Akureyri barst tilkynning um ferðir mannsins rúmum klukkutíma fyrir handtökuna eða klukkkan 21.37. Talið var að hinn vopnaði stefndi á ákveðið hús í Aðalstrætinu til að útkljá óuppgert mál við aðila sem þar býr. Lögreglan hafði gert viðeigandi ráðstafanir í Aðalstrætinu, lokað götunni og beint fólki frá hættusvæðinu. Fríður Leósdóttir, eigandi ísbúðarinnar Brynju, sem staðsett er í Aðalstrætinu, segir lögregluna hafa beðið fólk um að yfirgefa ísbúðina hljóðlega þegar maðurinn var ennþá laus. Lögreglan á Akureyri naut dyggrar aðstoðar sérsveitarmeðlima ríkislögreglustjóra sem staðsettir eru á Akureyri en dró til baka beiðni um aðstoð sveitarinnar í Reykjavík eftir að hafa handtekið manninn. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins höfðu menn sem tengdust húsráðanda í Aðalstrætinu ráðist á hinn handtekna á Þórsvellinum fyrr á föstudeginum og var hinn vopnaði því í hefndarhug. Skotvopnið sem maðurinn hafði undir höndum var stolið og samkvæmt heimildum stal maðurinn vopninu frá fósturföður sínum. Þarna var á ferðinni kröftugur hreindýrariffill sem var geymdur eftir settum vopnalögum í læstum hirslum. Maðurinn sem var handtekinn á föstudagskvöldið hefur áður komið við sögu lögreglunnar. Hann var yfirheyrður í gærkvöld en ekki var ljóst hver framvindan í málinu yrði þegar blaðið fór í prentun í gærkvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×