Innlent

Draugakastali í Djúpavík

Sex þúsund fermetra síldarverksmiðja, sem var á sínum tíma stærsta steinsteypta hús í Evrópu og miðstöð atvinnulífs á Vestfjörðum, stendur nú eins og draugakastali í Djúpavík á Ströndum. Stöð 2 fór og skoðaði þennan yfirgefna minnisvarða um gullár síldarævintýrsins - sem er reyndar alls ekki líflaus lengur. Það var fyrir 70 árum sem síldarævintýrið hið síðara hófst í Djúpavík í Reykjafirði á Ströndum. Vinnufólk streymdi þangað alls staðar af landinu og var reist mikil síldarverkmiðja og síldarsöltun. Aðeins um fimmtán árum seinna hvarf síldin og þá fór að síga á ógæfuhliðina. Enn má sjá í Djúpavík menjar þessa mikla athafnalífs. Í fjörunni liggur gamalt skip og verksmiðjan rís eins og yfirgefinn kastali yfir fjöruborðinu og þar inni má nánast heyra raddir þeirra fjölmörgu verkamanna sem þarna unnu. Ásbjörn Þorgilsson, staðarhaldari á Djúpavík, segir þetta vera stórmerkilega sögu því húsið, sem verksmiðjan var í, hafi einu sinni verið stærsta steinsteypta húsið í Evrópu, þ.e. algjörlega steypt úr sementi og möl.  Nú stendur yfir ljósmyndasýning í verksmiðjunni með myndum af gullöld Djúpavíkur. Verksmiðjan var öll hin vandaðasta og búin fullkomnustu tækjum. Ásbjörn segir að það að hefja þessa síldarvinnslu árið 1934 sé álíka átak og ef Íslendingar hefðu byggt álverið sjálfir árið 1962.  Þar sem síldarsöltunarstúlkurnar bjuggu á blómatíma staðarins, í Kvennabragganum svokallaða, hefur Ásbjörn og fjölskylda rekið hótel í nokkur ár svo þessi yfirgefni staður hefur gengið í endurnýjun lífdaga.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×