Innlent

Hægt að semja um allt innan ESB

Evrópumálaráðherra Breta, Denis MacShane, ræddi við Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra í morgun um Evrópusambandið og afstöðu Íslands gagnvart aðild. MacShane telur að hægt sé að semja um flest allt í tengslum við aðild.  Ráðherrarnir ræddu saman í rúman klukkutíma en Evrópumálaráðherra Breta er mikill Evrópusinni og telur að Íslandi eigi heima í sambandinu. Hann álítur að hægt sé að semja um flestöll atriði við inngöngu, setjist menn niður að samningaborðinu. Halldór Ásgrímsson segir fiskveiðimálin verða erfið varðandi hugsanlega aðild Íslands að ESB og að MacShane hafi staðfest það á fundi ráðherranna. Utanríkisráðherra segir aðalmálið vera að Íslendingar sjái hagsmunum sínum betur borgið í Evrópusambandinu og að áhugi á aðild þjóðarinnar sé líka hinum megin borðsins.   MacShane segir að ef menn komi vel undirbúnir til umræðna ætti að vera hægt að komast að samkomulagi. Það verði einfaldlega að setjast að samningaborðinu og þoka málinu áfram. Hann segir að tekið yrði tillit til þess, við inngöngu Íslands í ESB, að fiskveiðar eru aðalatvinnuvegur Íslendinga. Einnig yrði litið til mikilvægis þeirra fyrir fjárhag landsins og menningu. Samt sem áður verði að setja reglur sem gildi fyrir allar fiskveiðiþjóðir sambandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×