Innlent

Gert að sæta geðrannsókn

Gæsluvarðhald yfir Hákoni Eydal, manninum sem grunaður er um að hafa banað Sri Rahmawati, var framlengt um þrjár vikur í gær eða til 11. ágúst. Þá var honum einnig gert að sæta geðrannsókn. Hákon hefur tekið sér þriggja daga frest til að ákveða hvort hann kæri gæsluvarðhaldsúrskurðinn. Hilmar Baldursson, verjandi Hákonar, segir að umbjóðandi sinn taki sér þann frest sem hann hefur til að ákveða hvort hann kæri gæsluvarðhaldsúrskurðinn. Aðspurður hvort Hákon hefði í einhverju breytt þeirri yfirlýsingu sinni að hann hefði ekkert með hvarf Sri að gera svaraði Hilmar: "Hann hefur ekkert tjáð sig um það." Hákon hefur dvalið í gæsluvarðhaldi í tvær vikur meðan á rannsókn málsins hefur staðið. Hilmar kvaðst ekki geta tjáð sig um líðan hans. Hákon sem er fyrrverandi sambýlismaður og barnsfaðir Sri er grunaður um að hafa valdið dauða hennar á heimili sínu í Stórholti eða átt þátt í hvarfi hennar. Síðast er vitað um ferðir Sri á heimili Hákonar að morgni þess dags. Mikið blóð fannst á heimili Hákonar og blóð fannst einnig í jeppa hans. Lögreglu grunaði strax að glæpur hefði verið framinn og var Hákon handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfarið. Í vikunni komu niðurstöður úr DNA-rannsóknum frá Noregi sem sýndu að blóðið sem fannst í íbúðinni við Stórholt og í bíl Hákonar var allt úr Sri. Lögregla og björgunarsveitir leituðu að Sri í nágrenni Reykjavíkur um helgina, bæði á landi og úr lofti. Nú eftir helgi leituðu kafarar hennar í sjónum við bryggjuna á Geldinganesi. Þá hefur einnig verið leitað á svæðum vestan við Reykjavík en án árangurs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×