Innlent

Lögreglan sannfærð um sök

Lögregla er sannfærð um að karlmaður, sem situr í gæsluvarðhaldi, hafi ráðið hinni indónesísku Sri Ramawati bana. DNA-rannsókn staðfestir að blóð í íbúð mannsins og bíl sé allt úr konunni. Í íbúðinni voru merki um barsmíðar, en maðurinn neitar enn sök. Á morgun verður lögð fram krafa um framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir manninum, sem hefur setið þar í tvær vikur og ekki viljað játa að hafa komið sambýliskonu sinni fyrir. Lík hennar hefur ekki fundist þrátt fyrir mikla leit sem hélt áfram í dag. Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn, segir að lögregla sé ekki nær því að finna hana. Í íbúð mannsins voru merki um barsmíðar og þar fannst blóð og ummerki eftir blóð sem hafði verið reynt að þrífa, meðal annars í lofti íbúðarinnar. Sýni voru send til Noregs til DNA greiningar, sem staðfesti í dag að blóðið væri allt úr Sri Ramawati. Hörður segir þetta staðfesta það sem lögreglu grunaði allan tímann, að maðurinn hafi banað konunni á heimili sínu. Vitni segist hafa séð til mannsins bera eitthvað vafið inn í plast af heimili sínu daginn eftir að konan heimsótti hann, og blóð úr henni fannst í bíl hans. Manninum voru kynntar niðurstöður DNA-rannsóknarinnar í dag, en hann neitar þó enn að hafa ráðið henni bana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×