Innlent

Bryggjuhátíð á Drangsnesi

Siginn bútungur, lundi, hrefnukjöt, selskjöt og sigin grásleppa voru meðal þess sem var á boðstólum á árlegri Bryggjuhátíð sem haldin var í blíðskaparveðri á Drangsnesi um helgina. Fjölmenni var mætt á Bryggjuhátíðina á laugardaginn, sem orðinn er árviss viðburður í Drangsnesi. Veðrið var með besta móti og gestir skemmtu sér vel, enda boðið upp á fjölbreytta dagskrá, þar sem meðal annars var boðið upp á dorgveiði, fótbolta, söngvarakeppni og smakkað á sjávarréttum undir Harmónikkuspili við frystihúsið. Það snarkaði vel í grillinu, sem hýsti ógrynni af alls kyns lostæti, sem matreitt var ofan í gesti og gangandi. Þarna gaf að líta matvæli sem ekki eru í boði á hverjum degi en þó að matvælin hafi verið með óvenjulegra móti herma fregnir að vel hafi verið snætt og enginn hafi hlotið magaverki að átu lokinni. Þegar allir höfðu innbyrt nægju sína var dagskránni áfram haldið, þar sem meðal annars var sett upp markaðstjald og boðið upp á andlitsmálun. Eftir kvöldskemmtun í samkomuhúsinu Baldri og varðeld fór eldri kynslóðin í dansskóna og skemmti sér fram eftir nóttu á dansleik með Baldri Geirmundssyni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×