Innlent

Auglýsingar misvísandi

"Við gerum athugasemdir við framsetningu Heklu á niðurstöðum árekstrarprófana í auglýsingum sínum," segir Helga Guðrún Jónasdóttir, kynningarfulltrúi hjá B&L, en fyrirtækið hefur sent Samkeppnisstofnun kvörtun vegna auglýsingaherferðar Heklu á nýjum Golf. Er bifreiðinni lýst sem þeirri öruggustu samkvæmt árekstarprófunum Euro NCAP og telur Helga að þar sé ekki farið rétt með staðreyndir. "Í auglýsingunni er Golf kynntur sem öruggasti bílinn í sínum flokki með alls tólf stjörnur. Okkar mat er það að óheimilt sé að leggja saman með þessum hætti útkomu úr þremur ólíkum prófunum eins og Hekla gerir." Helga segir að áhyggjur B&L varði misnotkun á þeim upplýsingum sem úr þessum virtu prófunum koma. "Ef hver og einn túlkar þessar prófanir samkvæmt sínu eigin höfði hverfur trúverðugleiki þeirra eins og dögg fyrir sólu og það er fyrst og fremst það sem við viljum sporna gegn." Euro NCAP er samstarfsverkefni nokkurra Evrópuríkja auk bílgreinasambanda og áhugamanna víða í Evrópu en þar fara fram ítarlegar prófanir á öryggisþáttum bifreiða. Hæsta einkunn vegna öryggis bifreiðar eru fimm stjörnur og tekið fram á heimasíðu samtakanna að niðurstöður skuli aðeins bera saman innan hvers flokks fyrir sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×